Hlutdeildarlán – hvernig virkar þetta?

  • Þú þarft að eiga 5% af kaupverði í útborgun.
  • Húsnæðislán 75% – hlutdeildarlán 20% – eigið fé 5%.
  • Hlutdeildarlánin eru vaxtalaus og engin afborgun.
  • Þegar þú selur endurgreiðir þú 20% af söluverði til ríkisins.
  • Hlutdeildarlánin eru til 10-25 ára.
  • Gildir fyrir fyrstu kaup og þá sem ekki hafa átt fasteign sl. 5 ár.
  • Tekur gildi þann 1. nóvember 2020.
Hlutdeildarlán  – Nýjung í íbúðarlánum

Þann 1. nóvember taka gildi ný lög sem ætlað er að hjálpa fyrstu íbúðarkaupendum að eignast íbúð. Um er að ræða hlutdeildarlán fyrir fyrstu íbúðarkaupendur og þá sem ekki hafa átt fasteign sl. 5 ár. Þessi nýju lán eru frábær leið til að hjálpa fólki að komast af leigumarkaðinum og fyrsta almennilega úrræðið fyrir þá sem misstu fasteignina sína í hruninu. Hingað til hafa kaupendur þurft að eiga 15% í útborgun fasteignar en fyrir marga er þetta of há upphæð.

2 milljónir í útborgun fyrir 40 milljóna íbúð

Í sinni einföldustu mynd er verið að lækka þá upphæð sem þú þarft að reiða fram við kaupin á íbúðinni, úr 15% í 5%. Útborgun á 40 milljón króna eign verður því 2 milljónir (5%) en ekki 6 milljónir (15%). 

Ríkið eignast 20% í eigninni

Kaupandi reiðir fram 5% við útborgun, tekur 75% lán hjá lánastofnun og fær síðan 20% hlutdeildarlán hjá ríkinu. Engir vextir eða afborganir eru af hlutdeildaláninu en með því eignast ríkið 20% í eigninni. Þegar kaupandinn selur eignina aftur er 20% af söluverðinu endurgreitt til ríkisins.

Hlutdeildarlán sem tekið var fyrir 40 milljóna króna eign er 8 milljónir (20%). Kaupandinn selur eignina á 45 milljónir nokkrum árum síðar sem er 12,5% hækkun á verði. Hlutdeildalánið er þá greitt til baka með sömu hækkun, 12,5% eða 9 milljónir króna. 

Aðeins fyrir þá tekjulægstu

Lánin eru einungis í boði fyrir tekjulægri hópa. Ef þú býrð einn er ekki leyfilegt að vera með meira en 630 þúsund í tekjur á mánuði og pör í sambúð mega ekki hafa samanlagaðar tekjur yfir 880 þúsund á mánuði. Par má því vera með meðallaun upp á 440 þúsund á mánuði til að mega taka þessi lán, sem telst í lægri kantinum og mörg pör sem eru á leigumarkaðinum í dag eru með meira en 880 þúsund á mánuði í samanlagðar tekjur en ná samt sem áður ekki að safna sér fyrir útborgun. 

Fáar íbúðir virðast vera í boði

Hlutdeildarlán eru einungis í boði fyrir nýbygginar. Hámarksverð er á eignunum m.t.t. stærðar og fjölda svefnherbergja. 2 svefnherbergja íbúð sem er 71-80 fermetri má í mesta lagi kosta 46 milljónir og 1 svefnherbergja íbúð sem er 51-60 fermetri má í mesta lagi kosta 36,5 milljónir. Það eru mjög fáar nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu á þessu verðbili og í raun verður það hausverkur út af fyrir sig að finna nýbyggingu sem uppfyllir þessi skilyrði, hvað þá 400 á ári eins stefnt er að því að veita hlutdeildalán fyrir.

En get ég sótt um þessi lán núna?

Stefnt er að því að opna fyrir umsóknir þann 1. nóvember 2020 og eftir það verður hlutdeilarlánum úthlutað 6 sinnum á ári. 

Hægt er að fræðast betur um hlutdeildarlánin á vefsíðu: www.hlutdeildarlan.is 

Greinina skrifaði Páll Jónsson, starfsmaður Nýhafnar fasteignasölu.