Mikilvægi greiðslumats

Íbúðarkaup eru í sjálfu sér ekki mjög flókin viðskipti en þau taka lengri tíma en fólk á að venjast í dag þegar hægt er að kaupa nær hvað sem er með því að smella á hnapp í tölvunni eða símanum. Eflaust eiga viðskipti með fasteignir eftir að færast þangað eftir því sem tækninni fleygir fram og fyrirtæki og stofnanir tileinka sér nýjasta nýtt. Íslenski fasteignamarkaðurinn er þó ekki kominn þangað enn og því er ástæða til að ráðleggja fólki hvernig er best að undirbúa sig.

Greiðslumat áður en kauptilboð er lagt fram
Algengt er að fólk í kauphugleiðingum mæti í opið hús og í framhaldinu vill það gera tilboð. Alltof sjaldan er fólk í raun í þeirri stöðu að eiga að gera tilboð, því það á eftir að gera það sem mestu máli skiptir, að fara í greiðslumat hjá banka eða lífeyrissjóði.

Fyrirvari um fjármögnun er fráhrindandi fyrir seljendur
Sumir telja að ekki sé hægt að fara í greiðslumat nema hafa ákveðna eign í huga eða jafnvel að það þurfi að hafa kauptilboð í höndunum, en það er ekki svo. Sannleikurinn er sá að þeir sem eru búnir að fara í greiðslumat og hafa staðfestingu þess efnis frá banka eru mun líklegri til að fá tilboð sitt samþykkt af seljanda heldur en þeir sem eiga eftir að gera allt og eru óundirbúnir þegar rétta eignin finnst.

Lesið frjálslega í fyrirvara um fjármögnun
Svokallaður „fyrirvari um fjármögnun“ er mjög algengur í kauptilboðum en satt best að segja gerist það miður oft að lesið sé of frjálslega í slíkan fyrirvara og fyrirhugaðir kaupendur reyna jafnvel að bakka út úr kaupum ef þeim snýst hugur í miðjum viðskiptum.  Það þýðir að miklum tíma hefur verið sóað til einskis og seljandinn er aftur kominn á byrjunarreit í söluferlinu.

Ábyrgð fasteignasala að benda á ólíkleg kauptilboð
Ábyrgur og grandvar fasteignasali á að benda seljanda á að taka ekki tilboðum sem alls óvíst er um hvort kaupandi geti staðið við, og ekki síður, að benda áhugasömum og hugsanlegum kaupendum á að undirbúa sig fyrir fasteignakaup með því að framkvæma greiðslumat og hafa á hreinu hvaða peninga viðkomandi á í raun veru þegar hann hefur selt sína eign og áhvílandi skuldir hafa verið greiddar.

Hægt er að framkvæma greiðslumatið rafrænt hjá þeim banka sem þú stefnir á að taka lán hjá en einnig er hægt að mæta í útibúið og láta framkvæma það þar.